Landafræði
Svartiskógur er í suðvesturhorni Þýskalands og nær frá svissnesku landamærunum í suðri að heita má alla leið til Karlsruhe í norðri, eða um 200 km, en breiddin er um 60 km. Fyrir vestan er Rínardalurinn en fyrir austan tekur fjallgarðurinn Svafnesku alparnir við. Svartiskógur er alþakin skógi, sem löngum hefur verið notaður til smíða. Áður voru helstu trjátegundirnar beyki og greni og þær eru enn algengastar í dölum og lægðum en uppi í hlíðunum og á fjallstindum er rauðgreni algengast. Einnig er mikið um furu. Vegna
skógarhöggs og breyttrar landnýtingar þekur skógur nú miklu minna landsvæði en áður var.
Helsta borgin í Svartaskógi er Freiburg. Á svæðinu eru upptök margra fljóta, meðal annars Dónár (í
Donaueschingen) og
Neckar. Í Svartaskógi eru
vatnaskil milli vesturs og austurs og renna því ár þaðan bæði til Atlantshafs og Svartahafs. Bergið er auðugt að ýmsum málmum og á miðöldum var Svartiskógur eitt helsta námavinnslusvæði Evrópu. Þar voru meðal annars silfur-, blý-, kopar- og járnnámur. Svartiskógur er nú mikilvægt ferðamannasvæði sem meðal annars er þekkt fyrir
tréskurðarlist og
gauksklukkur. Svæðið er líka vel þekkt fyrir matargerð.