Rómaveldi

Kort af rómverska heimsveldinu þegar það var stærst, á tímum Trajanusar 98- 117 e.Kr.

Rómaveldi eða Rómverska heimsveldið var ríki og menningarsvæði í kringum Miðjarðarhaf og í Vestur-Evrópu sem var stjórnað frá Rómarborg. Samkvæmt fornri trú var Róm stofnuð árið 753 f.Kr. Um miðja 4. öld f.Kr. hófst útþensla ríkisins sem varð um síðir að heimsveldi. Rómaveldi stóð öldum saman en venja er að miða endalok Rómaveldis við árið 476 e.Kr. (þegar síðasta keisaranum í Róm var steypt af stóli). Eftir það lifði þó austrómverska keisaradæmið, sem klofið hafði verið frá því vestrómverska árið 364 og var stjórnað frá Konstantínópel. Sögu rómverska heimsveldisins má skipta í þrjú tímabil: Rómverska konungdæmið, rómverska lýðveldið og rómverska keisaradæmið. Það var ekki fyrr en seint á lýðveldistímanum og á tíma keisaradæmisins sem yfirráðarsvæði Rómar fór að færast út fyrir Appennínaskagann.

Rómversk menning hafði mikla sögulega endurómum á Vesturlöndum í þróun á sviði laga, stríðs, tækni, bókmennta, listar og byggingarlistar.

Saga

Goðsögulegt upphaf Rómar

Samkvæmt goðsögunni stofnuðu bræðurnir Rómúlus og Remus Rómarborg árið 753 f.Kr..
Aðalgrein: Stofnun Rómar

Sú saga var sögð til forna að Róm hefði verið stofnuð þann 21. apríl árið 753 f.Kr. af tvíburunum Rómúlusi og Remusi, sem voru afkomendur Eneasar frá Tróju. Er afi þeirra var konungur í Latíum hrifsaði bróðir hans af honum völdin en dóttir konungsins hafði þá alið tvo syni, Rómúlus og Remus. Afabróðir þeirra, sem var nú við völd, óttaðist að drengirnir myndu ná völdunum af sér aftur og ákvað því að þeim skyldi drekkt í ánni Tíber. Drengirnir drukknuðu þó ekki heldur flutu þeir að árbakka þar sem úlfynja nokkur fann þá og bjargaði þeim. [1] Hún nærði drengina en er þeir komust á aldur sneru þeir aftur til að ná völdunum af ólögmætum kóngi.

Rómúlus drap síðar bróður sinni er þeir deildu um hvor þeirra ætti að hljóta konungstign. Borgina skorti konur en sagan hermir íbúarnir hafi brugðið á það ráð að bjóða nágrönnum sínum Sabínum til veislu en hafi svo stolið ungmeyjum þeirra. Þannig hafi Rómverjar og Sabínar að endingu orðið að einni þjóð.

Um goðsögulegt upphaf Rómar má lesa hjá ýmsum fornum höfundum, meðal annars hjá Lívíusi. [2] Sagan um Eneas frá Tróju, forföður Rómúlusar og Remusar, sem kom til Latíum og stofnaði þar konungsríki er sennilega frægust úr Eneasarkviðu Virgils.

Rómverska konungdæmið

Róm óx út frá byggð umhverfis vað yfir ána Tíber, þar sem mættust verslunarleiðir. Fornleifafræðilegar rannsóknir benda til þess að Róm hafi sennilega verið stofnuð einhvern tímann um á 9. eða um miðja 8. öld f.Kr. af fólki frá tveimur ítölskum þjóðflokkum, Latínum og Sabínum, á Palatín-, Kapítól- og Quirinalhæðum.

Etrúrar, sem höfðu áður numið land fyrir norðan Latíum, virðast hafa náð pólitískum völdum á svæðinu seint á 7. öld f.Kr. og mynduðu ráðandi yfirstétt. Etrúrar virðast aftur á móti hafa glatað völdum sínum á þessu svæði seint á 6. öld f.Kr. og Latínar og Sabínar, sem stofnuðu borgina, virðast þá hafa endurskilgreint stjórnkerfi borgarinnar með því að stofna lýðveldi, þar sem miklu meiri hömlur voru á getu valdhafanna til að beita valdi sínu.

Rómverska lýðveldið

Rómverska lýðveldið var stofnað um 509 f.Kr., samkvæmt því sem seinni tíma höfundar á borð við Lívíus segja, eftir að Tarquinius drambláti, síðasti konungur Rómar, hafði verið hrakinn frá völdum. Rómverjar ákváðu þá að koma á kerfi þar sem valdhafarnir voru kjörnir í kosningum. Enn fremur voru ýmsar ráðgjafasamkundur og þing stofnaðar. Mikilvægustu embættismennirnir voru ræðismenn („konsúlar“), sem voru tveir og kjörnir til eins árs í senn. Þeir fóru með framkvæmdavaldið í formi imperium eða herstjórnar. Ræðismennirnir kepptu við öldungaráðið, sem var upphaflega ráðgjafasamkunda aðalsins, eða „patríseia“, en óx bæði að stærð og völdum er fram liðu stundir. Meðal annarra embættismanna lýðveldisins má nefna dómara (praetor), edíla og gjaldkera (quaestor). Í upphafi gátu einungis aðalsmenn gegnt embættum en seinna gat almúgafólk, eða plebeiar, einnig gegnt embættum. [3]

Rómverjar náðu hægt og bítandi völdum yfir öllum öðrum þjóðum á Ítalíuskaganum, þar á meðal Etrúrum. Síðasta hindrunin í vegi fyrir algerum yfirráðum Rómverja á Ítalíu var gríska nýlendan Tarentum, sem leitaði aðstoðar hjá Pyrrhusi konungi frá Epírus árið 282 f.Kr., en mótstaðan var til einskis. Rómverjar tryggðu yfirráð sín með því að stofna eigin nýlendur á mikilvægum stöðum og héldu stöðugri stjórn sinni á svæðinu.

Gaius Marius, rómverskur herforingi og stjórnmálamaður sem endurskipulagði rómverska herinn.

Á síðari hluta 3. aldar f.Kr. kom til átaka milli Rómar og Karþagó í fyrsta púnverska stríðinu af þremur. Í kjölfarið náði Róm tryggri fótfestu utan Ítalíuskagans í fyrsta sinn, fyrst á Sikiley og Spáni en seinna víða annars staðar. Róm breyttist í stórveldi. Eftir sigur á Makedóníu og Selevkídaríkinu rétt fyrir miðja 2. öld f.Kr. urðu Rómverjar valdamesta þjóðin við Miðjarðarhafið.

Yfirráð yfir fjarlægum þjóðum leiddi til deilna í Róm. Öldungaráðsmenn urðu ríkir á kostnað skattlandanna en hermenn, sem voru flestir smábændur, voru að heiman lengur og gátu ekki viðhaldið landi sínu. Enn fremur var æ meira um ódýrt vinnuafl í formi erlendra þræla sem vinnandi stéttum gekk erfiðlega að keppa við. Hagnaður af herfangi, kaupmennska í nýju skattlöndunum og skattlagning skóp ný tækifæri meðal lægri stétta en ríkir kaupmenn mynduðu nýja millistétt, riddarastétt. Riddarastéttin hafði meira fé milli handanna en var enn talin til plebeia og hafði þess vegna mjög takmörkuð pólitísk völd. Öldungaráðið kom ítrekað í veg fyrir mikilvægar umbætur í jarðamálum og neitaði að gefa riddarastéttinni eftir nein völd. Sumir öldungaráðsmenn komu sér upp sveitum ólátabelgja úr röðum atvinnulausra fátæklinga, sem þeir notuðu til að hrella pólitíska andstæðinga sína og hafa áhrif á niðurstöður kosninga. Ástandið var sem verst seint á 2. öld f.Kr. á tímum Gracchusarbræðra, þeirra Gaiusar Gracchusar og Tíberíusar Gracchusar, sem reyndu að setja lög um endurskiptingu jarðnæðis í ríkiseigu handa plebeium. Báðir voru drepnir en öldungaráðið féllst um síðir á sumar af tillögum þeirra og reyndi þannig að lægja óánægjuöldur meðal lægri stéttanna.

Bandamannastríðið svonefnda braust út árið 91 f.Kr. þegar bandamenn Rómverja á Ítalíuskaganum fengu ekki borgararéttindi. Það stóð til ársins 88 f.Kr.. Endurskipulagning Gaiusar Mariusar á rómverska hernum varð til þess að hermenn sýndu oft herforingja sínum meiri meiri tryggð en borginni. Valdamiklir herforingjar gátu náð kverkataki á bæði öldungaráðinu og borginni. Þetta leiddi til borgarastríðs milli Mariusar og Súllu sem endaði með einveldistíð Súllu 81- 79 f.Kr. [4]

Um miðja 1. öld f.Kr. mynduðu þeir Júlíus Caesar, Pompeius og Crassus með sér leynilegt bandalag um stjórn ríkisins, hið svonefnda fyrra þremenningasamband. Þegar Caesar hafði náð Gallíu undir rómversk yfirráð leiddi árekstur milli hans og öldungaráðsins til annars borgarastríðs, þar sem Pompeius stjórnaði herjum öldungaráðsins. Caesar hafði sigur og var gerður einvaldur (dictator) til lífstíðar. [5] Árið 44 f.Kr. var Caesar ráðinn af dögum af hópi öldungaráðsmanna sem voru mótfallnir einveldi Caesars og vildu koma á löglegri stjórn að nýju. Það mistókst en í kjölfarið varð til síðara þremenningasambandið með samkomulagi milli Oktavíanusar, erfingja Caesars, og tveggja fyrrum stuðningsmanna Caesars, Marcusar Antoniusar og Lepidusar og skiptu þeir með sér völdunum. Þetta bandalag leystist fljótt upp og varð til þess að Oktavíanur og Marcus Antonius kepptust um völd. Þegar skarst í odda með þeim sigraði Oktavíanus Marcus Antonius og Kleópötru Egyptalandsdrottningu í orrustunni við Actíum árið 31 f.Kr.

Í kjölfarið varð Oktavíanus óumdeildur valdhafi Rómar, og þótt að nafninu til hafi hann einungis gegnt ýmsum embættum rómverska lýðveldisins var hann þó í raun nokkurs konar einvaldur allt til æviloka. Hann hélt völdum í yfir fjóra áratugi og mótaði á þeim tíma vald keisarans. Venjan er að telja Oktavíanus fyrsta keisarann og miða upphaf keisaratíðar hans við árið 27 f.Kr. er samkomulag náðist milli hans og öldungaráðsins um völd hans en öldungaráðið veitti honum að því tilefni virðingarheitið Ágústus.

Keisaratíminn

Þegar Ágústus hafði sigrað andstæðinga sína voru völd hans nánast ótakmörkuð enda þótt hann gætti þess vandlega að viðhalda stjórnarformi lýðveldisins í orði kveðnu. Eftirmaður hans, Tíberíus, tók við völdunum án átaka. Þannig festist Júlíska-cládíska ættin í sessi sem valdhafar og hélt þeirri stöðu þar til Neró lést árið 68. Útþensla Rómaveldis hélt áfram og ríkið stóð föstum fótum þrátt fyrir að til valda kæmust keisarar sem voru álitnir spilltir (til dæmis Caligula og e.t.v. einnig Neró). Eftir dauða Nerós var stuttur óvissutími í rómverskum stjórnmálum og á einu ári komust fjórir keisarar til valda. Að lokum tók þó við stjórn flavísku ættarinnar. Flavíska ættin fór með völdin í Róm til ársins 96 en þá tók við tími „ góðu keisaranna fimm“ sem varði til ársins 180. Á þessum tíma var Rómaveldi stærst og efnahagsleg og menningarleg áhrif þess náðu hámarki. Ríkinu var hvorki ógnað að utan né innan.

Árin 193 til 235 ríkti severíska ættin og nokkrir vanhæfir keisarar komust til valda, þar á meðal Elagabalus. Herinn hafði æ meiri áhrif á val nýrra keisara og það leiddi til hnignunarskeiðs sem oft er kallað 3. aldar kreppan. Kreppunni lauk þegar Diocletianus komst til valda. Árið 293 skipti hann Rómaveldi í austur- og vesturhluta og kom á fjórveldisstjórn þar sem tveir keisarar voru við völd í hvorum hluta ríkisins. Þessir keisarar börðust oft um völdin sín á milli. Árið 330 stofnaði Konstantínus mikli höfuðborg Austrómverska ríkisins í Býzantíon en frá árinu 395 var ríkinu skipt fyrir fullt og allt í Vestrómverska ríkið og Austrómverska ríkið (sem var síðar nefnt Býsansríkið).

Vestrómverska ríkið átti stöðugt í vök að verjast gegn innrásum barbara. Hæg hnignum Rómaveldis hélt áfram öldum saman. Á endanum héldu barbararnir Rómarborg í herkví en þeim hafði verið lofað land. Þeir ætluðu að koma í veg fyrir að fólk kæmist til eða frá borginni þar til þeir fengju landið sem þeim var lofað. Eftir að hafa verið sviknir nokkrum sinnum jókst þeim reiðin og þeir hertóku borgina. Árið 410 fóru Vísigotar ránshendi um borgina og 4. september árið 476 neyddi germanski herforinginn Odoacer síðasta vestrómverska keisarann, Rómúlus Ágústus, í útlegð. Þar með lauk um 1200 ára langri sögu Rómaveldis í vestri.

Austrómverska ríkið hélt velli mun lengur en féll einnig vegna innrásarherja. Arabískir þjóðflokkar náðu undir sig ríkustu landsvæðum ríkisins, þar á meðal þeim sem Justinianus 1. hafði náð aftur. Rómarborg var sjálf undir yfirráðum innrásarherja. Árið 1000 náði Austrómverska ríkið hátindi sínum: Basileios 2. lagði Búlgaríu og Armeníu undir Austrómverska ríkið á ný og menning og verslun voru í blóma. En útþenslan var stöðvuð árið 1071 í orrustunni um Manzikert. Í kjölfarið fylgdi skeið mikillar hnignunar. Í nokkrar aldir ríktu óeirðir innanlands og innrásir Tyrkja leiddu að lokum til hörmunga fjórðu krossferðarinnar. Í kjölfar innrásarinnar í Konstantínópel árið 1204 tók ríkið að leysast upp. Þegar borginni var náð á ný var ríkið lítið annað en grískt ríki við strönd Eyjahafs. Mehmet 2. Súltán Tyrkja, vildi ráða niðurlögum Austrómverska ríkisins og gerði það árið 1453 þegar Konstantínópel féll fyrir her hans.

Other Languages
Afrikaans: Antieke Rome
Alemannisch: Römisches Reich
aragonés: Antiga Roma
العربية: روما القديمة
asturianu: Antigua Roma
azərbaycanca: Qədim Roma
تۆرکجه: قدیم روم
башҡортса: Боронғо Рим
Boarisch: Remisches Reich
беларуская: Старажытны Рым
беларуская (тарашкевіца)‎: Старажытны Рым
български: Древен Рим
brezhoneg: Henroma
bosanski: Antički Rim
català: Antiga Roma
Mìng-dĕ̤ng-ngṳ̄: Gū Lò̤-mā
Cebuano: Karaang Roma
کوردی: ڕۆمای کۆن
Чӑвашла: Авалхи Рим
Zazaki: Roma Antike
Ελληνικά: Αρχαία Ρώμη
English: Ancient Rome
Esperanto: Romio
español: Antigua Roma
eesti: Rooma riik
Võro: Vana-Rooma
français: Rome antique
Nordfriisk: Röömsk Rik
furlan: Rome antighe
galego: Roma antiga
客家語/Hak-kâ-ngî: Kú Lò-mâ
hrvatski: Antički Rim
Kreyòl ayisyen: Ròm ansyen
magyar: Ókori Róma
Հայերեն: Հին Հռոմ
interlingua: Roma antique
Bahasa Indonesia: Romawi Kuno
italiano: Civiltà romana
日本語: 古代ローマ
ქართული: ძველი რომი
қазақша: Ежелгі Рим
한국어: 고대 로마
коми: Важ Рим
Кыргызча: Байыркы Рим
lietuvių: Senovės Roma
latviešu: Senā Roma
македонски: Римски период
Bahasa Melayu: Rom kuno
Mirandés: Roma Antiga
Plattdüütsch: Röömsch Riek
नेपाल भाषा: प्राचीन रोम
Nederlands: Oude Rome
norsk: Romerriket
Sesotho sa Leboa: Roma ya kgale
Diné bizaad: Roman dineʼé
occitan: Roma antica
Piemontèis: Siviltà roman-a
português: Roma Antiga
rumantsch: Imperi roman
română: Roma Antică
русский: Древний Рим
русиньскый: Старовікый Рим
sicilianu: Antica Roma
srpskohrvatski / српскохрватски: Antički Rim
Simple English: Ancient Rome
slovenčina: Staroveký Rím
српски / srpski: Антички Рим
Kiswahili: Roma ya Kale
ślůnski: Starożytny Rzim
тоҷикӣ: Рими Қадим
Türkçe: Antik Roma
татарча/tatarça: Борынгы Рим
українська: Стародавній Рим
اردو: قدیم روم
oʻzbekcha/ўзбекча: Qadimgi Rim
Tiếng Việt: La Mã cổ đại
Winaray: Hadton Roma
ייִדיש: אוראלט רוים
中文: 古罗马
文言: 古羅馬
Bân-lâm-gú: Kó͘-tāi Lô-má
粵語: 古羅馬
isiZulu: Rhomani