Ríki (flokkunarfræði)

Biological classification L Pengo Icelandic.svg
Þriggja ríkja kerfi Ernst Haeckel frá 1866 þar sem lífverum er skipt í dýraríki, jurtaríki og frumveruríki.

Ríki er yfirflokkur vísindalegra flokka sem notaðir eru til að flokka lífverur. Ríki eru sums staðar notuð sem yfirflokkur fyrir annað en lífverur vegna hliðstæðu milli flokkunarkerfa. Sem dæmi má nefna veiruríkið (veirur eru ekki lífverur en flokkaðar á svipaðan hátt) og steinaríkið. Ríkin eru efsti (eða næstefsti) flokkurinn í flokkunarfræðinni.

Í bók sinni Systema naturae sem kom út árið 1735 gerði Carl von Linné greinarmun á tveimur ríkjum lifandi vera, dýraríkinu og jurtaríkinu. Hann fjallaði raunar líka um steindir og setti þær í sérstakt steinaríki (Mineralia). Linné skipti hverju ríki í flokka sem síðar urðu að fylkingum hjá dýrum og skiptingum hjá jurtum.

Þegar einfrumungar uppgötvuðust var þeim fyrst skipt á milli ríkjanna tveggja þannig að hreyfanleg form lentu í frumdýraríkinu (Protozoa) en litir þörungar og bakteríur í jurtaríkinu sem þelplöntur (Thallophyta) og frumplöntur (Protophyta). Erfitt reyndist að flokka nokkurn fjölda einfrumunga eða þá að þeir voru flokkaðir á ólíkan hátt af ólíkum höfundum; til dæmis hreyfanlegir dílþörungar og amöbulík Mycetozoa. Vegna þessa stakk Ernst Haeckel upp á þriðja ríkinu, frumveruríkinu (Protista), fyrir þessar lífverur.[1][2]

Tvö veldi, fjögur ríki

Sú uppgötvun að bakteríur eru með frumubyggingu sem er gerólík frumum annarra lífvera (bakteríur eru með eina frumuhimnu meðan frumur annarra lífvera hafa flóknari byggingu, til dæmis kjarna og frumulíffæri) fékk Chatton til að stinga árið 1937 upp á skiptingu alls lífríkisins í tvö veldi; veldi heilkjörnunga fyrir lífverur með frumukjarna, og veldi dreifkjörnunga fyrir lífverur án frumukjarna.[3]

Tillaga Chattons fékk ekki miklar undirtektir til að byrja með. Herbert Copeland kom fram með algengara kerfi árið 1956 þar sem dreifkjörnungar fengu sérstakt ríki sem upphaflega hét Mychota en fékk síðar heitið Monera eða gerlaríkið (Bacteria)[4]. Í kerfi Copelands voru allir heilkjörnungar, aðrir en dýr og jurtir, settir í frumveruríkið Protoctista[5].

Smátt og smátt kom samt betur í ljós hversu mikilvæg skiptingin var milli heilkjörnunga og dreifkjörnunga og fleiri urðu til að taka upp tvíveldiskerfi Chattons.[6]

Other Languages
العربية: مملكة (تصنيف)
беларуская: Царства (біялогія)
беларуская (тарашкевіца)‎: Царства (біялёгія)
brezhoneg: Riezad
Esperanto: Regno (biologio)
estremeñu: Réinu (biologia)
فارسی: فرمانرو
hornjoserbsce: Swět (biologija)
Bahasa Indonesia: Kerajaan (biologi)
日本語: 界 (分類学)
Basa Jawa: Krajan (biologi)
한국어: 계 (생물학)
Lëtzebuergesch: Räich (Biologie)
മലയാളം: കിങ്ഡം
Bahasa Melayu: Alam (biologi)
မြန်မာဘာသာ: လောက (ဇီဝဗေဒ)
Napulitano: Regno (biologgia)
Nederlands: Rijk (biologie)
norsk nynorsk: Biologisk rike
Kapampangan: Kaarian (biolohia)
português: Reino (biologia)
Runa Simi: Rikch'aq suyu
română: Regn
srpskohrvatski / српскохрватски: Carstvo (taksonomija)
Simple English: Kingdom (biology)
slovenčina: Ríša (taxonómia)
slovenščina: Kraljestvo (biologija)
Türkmençe: Şalyk (biologiýa)
татарча/tatarça: Патшалык (биология)
українська: Царство (біологія)
Tiếng Việt: Giới (sinh học)
West-Vlams: Ryk (biologie)
中文: 界 (生物)
Bân-lâm-gú: Kài (hun-lūi-ha̍k)
粵語: