Hinrik og Hagbarður

Hinrik og Hagbarður (franska: Johan et Pirlouit) er teiknimyndasería sköpuð af hinum belgíska Peyo. Hinrik er ungur skjaldsveinn sem lendir í ævintýrum, og í þriðju bókinni bætist honum liðsauki sem er Hagbarður, hrekkjóttur dvergur. Ævintýri þeirra Hinriks og Hagbarðs birtust sem framhaldssögur í teiknimyndablaðinu Sval en voru jafnóðum gefnar út á bókaformi.

Serían kynnir til sögu Strumpana sem liðsinna Hinriki og Hagbarði í nokkrum bókanna.

Saga

Peyo hóf að rita sögurnar um skjaldsveininn Hinrik (Johan) fyrir belgískt dagblað árið 1947. Árið 1952 hóf sagnaflokkurinn göngu sína í myndasögublaðinu Sval og varð þá sú breyting á söguhetjunni að hún skipti um hárlit: ljósa hárið varð hrafnsvart. Tveimur árum síðar, í sögunni Le Lutin du bois aux roches, kom dvergurinn Hagbarður til sögunnar og drógu ævintýrin upp frá því nafn sitt af báðum persónunum.

Þótt Strumparnir nytu löngum meiri vinsælda en sögurnar um Hinrik og Hagbarð, leit Peyo alla tíð á sögurnar sem sitt merkasta verk. Þannig sá hann ætíð sjálfur um að teikna og skrifa ævintýri þeirra félaganna á meðan hann treysti töluvert á aðstoðarmenn við gerð Strumpabókanna og sagnanna um Steina sterka. Vinsældir Strumpanna gerðu það hins vegar að verkum að Peyo gat lítið sinnt þessum uppáhaldspersónum sínum. Eftir dauða hans, árið 1977, hafa hins vegar fjórar nýjar sögur litið dagsins ljós eftir ýmsa höfunda.

Fimm bækur um Hinrik og Hagbarð komu út á íslensku á vegum bókaútgáfunnar Iðunnar á árunum 1982 til 1984. Myndasögublaðið Zeta birti eitt ævintýranna sem framhaldssögu í fimm hlutum á árunum 2000 til 2001.

Other Languages