Bonnie og Clyde

Bonnie og Clyde í mars árið 1933 á ljósmynd sem lögreglan fann á felustað þeirra í Jospin, Missouri.

Bonnie Elizabeth Parker (1. október, 1910 – 23. maí, 1934) og Clyde Chestnut Barrow, öðru nafni Clyde Champion Barrow[1] (24. mars, 1909 – 23. maí, 1934) voru bandarískir glæpamenn sem ferðuðust um miðhluta Bandaríkjanna ásamt glæpaflokk sínum á tíma kreppunnar miklu, rændu fólk og drápu það þegar þau voru króuð af. Glæpir þeirra gerðu parið alræmt meðal bandarísks almennings á árunum 1931 til 1935. Nú til dags er þeirra minnst fyrir bankarán þeirra en parið rændi aðallega litlar verslanir og afskekktar bensínstöðvar. Talið er að glæpagengið hafi drepið a.m.k. níu lögreglumenn og nokkra almenna borgara. Að lokum leiddu lögreglumenn parið í gildru og skutu það til bana í Sailes, Bienville Parish í Louisiana. Orðspor þeirra fór á flug í bandarískri dægurmenningu eftir að kvikmynd um þau kom út í leikstjórn Arthur Penn árið 1967.[2] Í dag er algengt að elskendum sem lifa glæpalífi saman sé líkt við Bonnie og Clyde.

Jafnvel á meðan þau lifðu var orðspor þeirra mjög ólíkt veruleikanum sem þau lifðu á faraldsfæti, sérstaklega í tilfelli Bonnie Parker. Hún var viðstödd yfir hundrað glæpaverknaða á þeim tveimur árum sem hún var kærasta Barrow[3] en hún var ekkert í líkingu við persónuna sem fjölmiðlar og tímarit gerðu hana að í umfjöllun sinni: Að kaldrifjuðu morðkvendi sem keðjureykti vindla og var ávallt með vélbyssu við höndina. W. D. Jones, einn meðlimur glæpaflokksins, bar vitni um að hann hefði aldrei séð hana skjóta á lögreglumann[4][5] og frægð hennar fyrir vindlareykingar spratt af gamansamri, uppstilltri ljósmynd af henni sem fannst á yfirgefnum felustað gengisins. Parker var keðjureykingakona en hún reykti aðeins Camel-vindlinga en ekki vindla.[6]

Samkvæmt sagnfræðingnum Jeff Guinn leiddu ljósmyndirnar sem fundust á felustað glæpaflokksins til þess að almenningur dró upp glansmynd af Bonnie og Clyde. Í ritum sínum færir hann rök fyrir því að ljósmyndirnar hafi gert þau að „stjörnum“ glæpaheimsins og vakið samúð og spennu almennings ekki síst vegna þess að augljóst þótti að þau ættu í kynferðislegu sambandi utan hjónabands. [7]

Other Languages
Afrikaans: Bonnie en Clyde
العربية: بوني وكلايد
azərbaycanca: Bonni və Klayd
български: Бони и Клайд
čeština: Bonnie a Clyde
Esperanto: Bonnie kaj Clyde
español: Bonnie y Clyde
français: Bonnie et Clyde
հայերեն: Բոննի և Քլայդ
Bahasa Indonesia: Bonnie dan Clyde
italiano: Bonnie e Clyde
lietuvių: Boni ir Klaidas
latviešu: Bonija un Klaids
Nederlands: Bonnie en Clyde
português: Bonnie e Clyde
русский: Бонни и Клайд
srpskohrvatski / српскохрватски: Bonnie i Clyde
Simple English: Bonnie and Clyde
slovenčina: Bonnie a Clyde
Türkçe: Bonnie ve Clyde
українська: Бонні та Клайд