Þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi

Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa átta sinnum farið fram á Íslandi. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands kveður á um við hvaða aðstæður þjóðaratkvæðagreiðslur skuli haldnar. Í 11 gr. segir að hún skuli haldin ef Alþingi leysir forseta frá störfum, í 26. gr. segir að hún skuli haldin ef forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar og í 79. gr. segir að hún skuli haldin ef Alþingi samþykkir breytingar á kirkjuskipan ríkisins. Af þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi hafa tvær verið vegna synjunar forseta á að undirrita lög og engar verið haldnar vegna breytinga á kirkjuskipan ríkisins eða vegna þess að alþingi hafi leyst forseta frá störfum. Flestar hafa verið af öðrum ástæðum.

Engin ákvæði eru um nánari útfærslur á þjóðaratkvæðagreiðslum, s.s. lágmarksþáttöku eða hversu stóran meirihluta þurfi til að niðurstaðan sé gild. Við atkvæðagreiðslu um framtíðargildi laga nr. 1/2010 (Icesave) árið 2010 voru sett sérstök lög um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

Af þeim átta þjóðaratkvæðagreiðslum sem fram hafa farið á Íslandi voru fimm haldnar fyrir stofnun lýðveldisins og þrjár eftir stofnun þess. Í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum var spurt um fleira en eitt mál í einu: Í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944 var kosið um tvö mál í einu og í þjóðaratvæðagreiðslu 2012 um sex mál. Alls hafa því fjórtán spursmál verið lögð fyrir kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi.

ÁrKosið umÞátttakaSamþykkAndvíg
1908áfengisbann73%60,1%39,9%
1916þegnskylduvinnu53%8,2%91,8%
1918setningu sambandslaganna43,8%92,6%7,4%.
1933afnám áfengisbanns45%57,7%42,3%
1944afnám sambandslaganna98,61%99,5%0,5%
1944setningu nýrrar stjórnarskrár98,61%98,5%1,5%
2010ríkisábyrgð vegna Icesave62,51%1,82%98,18%
2011ríkisábyrgð vegna Icesave75%40,1%59,7%
2012tillögur stjórnlagaráðs verði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár49%66,933,1
2012færslu náttúruauðlinda í þjóðareigu?82,917,1
2012ákvæði um þjóðkirkju?57,142,9
2012aukið persónukjör í kosningum?78,421,6
2012vægi atkvæða milli landshluta verði gert jafnt?66,533,5
2012kosningabærir menn geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu?73,326,7


Forsetinn og þjóðaratkvæðagreiðsla

26. grein stjórnarskrár íslenska lýðveldisins hljóðar svo:

„Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.“

Þrisvar hefur reynt á gildi 26. greinarinnar. Í fyrsta skiptið árið 2004 þegar forseti synjaði lögum um svokallað fjölmiðlafrumvarp staðfestingar. Í því tilfelli kom ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem ný lög voru sett sem námu þau fyrri úr gildi. Annað skiptið var þegar forseti synjaði lögum um skuldbindingar Íslands vegna Icesave staðfestingar árið 2010. Í því tilviki fór atkvæðagreiðslan fram þann 6. mars 2010. Það var í fyrsta skipti sem þjóðin felldi lög sem hafa verið samþykkt af Alþingi. Rúm 98% þeirra sem tóku afstöðu sögðu nei. Þriðja skiptið var 2011 og snerist einnig um Icesave. Þá var nýjum lögum um Icesave hafnað.

  • tengill

Tengill

Other Languages